
Almennir skilmálar
Neðangreindir skilmálar Noona Iceland ehf., kt. 460624-0610, Ármúla 25, 108 Reykjavík (hér eftir „Noona“, „félagið“ eða „við“) gilda um alla notkun á þjónustu Noona eins og hún er skilgreind í Noona HQ, markaðstorginu Noona og Noona sölukerfi (sameiginlega „kerfin“ eða „þjónusta Noona“).
Noona HQ er bókunarkerfi, sem gerir þjónustuaðilum kleift að halda utan um tímapantanir, bókunar- og heimsóknasögu viðskiptavina þjónustuaðilans, samskipti við viðskiptavini og aðra þætti sem tengist daglegum rekstri þjónustufyrirtækja. Þeir þjónustuþættir sem í boði eru í Noona HQ kunna að vera mismunandi milli viðskiptavina eftir því hvers konar þjónustu viðskiptavinur óskar eftir hverju sinni.
Noona er markaðstorg þar sem notendur geta pantað og haldið utan um tímapantanir hjá ýmsum þjónustuveitendum. Markaðstorgið er bæði aðgengilegt í vefviðmóti og í smáforriti. Við tökum að okkur að birta notendum smáforritsins upplýsingar um bókunarsögu notanda hjá mismunandi þjónustuveitendum í gegnum smáforritið. Í gegnum smáforritið geta notendur jafnframt vistað upplýsingar um þjónustuveitendur og þjónustu þeirra í „uppáhalds“ og pantað tíma hjá þjónustuveitendum í gegnum smáforritið.
Noona sölukerfi er hugbúnaður sem gerir þjónustuaðila kleift að ganga frá sölu á vöru eða þjónustu til viðskiptavina sinna og halda utan um aðra þætti sem snúa að rekstri þjónustuaðila svo sem upplýsingar um pantanir/bókanir og viðskiptavini. Kerfið býður m.a. upp á netsölulausnir og sjálfsafgreiðslulausnir. Þeir þjónustuþættir sem í boði eru í Noona sölukerfi kunna að vera mismunandi milli viðskiptavina eftir því hvers konar þjónustu viðskiptavinur óskar eftir hverju sinni. Til þess að nýta Noona sölukerfi er nauðsynlegt að þjónustuaðili geri sérstakan samning við færsluhirði, og um þjónustu hans gilda skilmálar viðeigandi færsluhirðis.
Með „viðskiptavini“ er átt við þann aðila sem gengur frá pöntun á aðgangi að Noona HQ og/eða Noona sölukerfi. Sé um lögaðila að ræða skal hið skráða fyrirtæki teljast viðskiptavinur félagsins, nema samið sé um annað.
Viðskiptavinir geta boðið starfsmönnum, samstarfmönnum og/eða verktökum aðgang að Noona sölukerfi og Noona HQ og er í skilmálum þessum vísað til slíkra aðila sem „notenda Noona sölukerfis/Noona HQ“. Viðskiptavinir bera ábyrgð á notkun notenda Noona sölukerfis/Noona HQ gagnvart félaginu.
Með „notendum Noona“ er átt við notendur markaðstorgsins Noona, bæði notendur smáforritsins og vefviðmótsins. Þá kann í skilmálunum að vera vísað sameiginlega til notenda Noona sölukerfis/Noona HQ og notenda Noona sem „notenda“.
Skilmálar þessir, ásamt eftir atvikum sérskilmálum, þjónustusamningi, samþykktu tilboði félagsins um þjónustu Noona og gildandi verðskrá Noona fela að jafnaði í sér heildarsamning milli Noona og viðskiptavinar/notanda um þjónustu Noona.
Samþykki á skilmálum þessum telst hafa átt sér stað með undirritun viðskiptavinar á þjónustusamning um þjónustu Noona, eða sambærilegri staðfestingu viðskiptavinar á þjónustu, t.d. með samþykki á tilboði í þjónustuna með tölvupósti eða þegar viðskiptavinur/notandi hefur notkun þjónustu Noona.
1. Leyfi til notkunar á kerfunum
Viðskiptavinum og notendum er veitt tímabundið, almennt (e. non exclusive), afturkallanlegt og óframseljanlegt leyfi til að nota þjónustu Noona, eftir atvikum gegn greiðslu umsaminna gjalda.
Noona HQ og Noona sölukerfi innihalda nokkra mismunandi þjónustuþætti en þeir þjónustuþættir sem í boði eru hverju sinni fara eftir áskrift viðskiptavinar. Óski viðskiptavinur eftir þjónustu sem ekki fellur undir áskrift hans, skal hann greiða viðbótargjald fyrir slíka þjónustu samkvæmt verðskrá Noona eins og hún er á hverju tíma eða þeim verðskilmálum sem Noona setur.
Framboð þjónustuþátta í kerfunum er alfarið háð mati og ákvörðun Noona. Noona getur því einhliða breytt, bætt við eða hætt að bjóða upp á tiltekna þjónustuþætti án sérstakrar ábyrgðar gagnvart viðskiptavini/notanda. Við munum þó tilkynna viðskiptavinum/notendum um slíkar breytingar með a.m.k. 30 daga fyrirvara, með tölvupósti eða tilkynningu á svæði viðskiptavinar/notanda í kerfunum.
2. Aðgengi að kerfunum
Til þess að nota kerfin býr notandi til notandanafn (notandanafn er alltaf það sama og netfang notanda) og lykilorð. Framangreindar upplýsingar, ásamt öðrum sambærilegum upplýsingum sem Noona kann að óska eftir við skráningu aðgangs eða sem notendur kerfanna kunna að afhenda okkur, teljast til „aðgangsupplýsinga“ notenda.
Notendur bera einir ábyrgð á því að tryggja leynd aðgangsupplýsinga sinna. Notendum er heimilt að veita aðilum upplýsingar af aðgangi sínum í tengslum við reikningagerð eða í bókhaldslegum tilgangi. Slíkt er þó ávallt gert á eigin ábyrgð.
Ef notendur telja að annar aðili hafi komist yfir aðgangsupplýsingar þeirra, skal hafa samband við starfsfólk Noona eins fljótt og auðið er, en í slíkum tilfellum mælum við einnig með að lykilorði sé breytt samstundis, en það er hægt að gera í stillingum. Það skal tekið fram að aðgangur notanda að þjónustu Noona, gæti rofnað af ýmsum ástæðum, og ber Noona hvorki ábyrgð á beinu eða óbeinu tjóni sem notandi kann að verða fyrir af slíku rofi.
3. Noona sölukerfi – búnaður
Við kaup á aðgangi af Noona sölukerfi fær viðskiptavinur tiltekinn búnað að láni frá Noona svo sem spjaldtölvur, eldhúsprentara og peningaskúffur, allt eftir því sem við á hverju sinni („búnaður“).
Allt eignarhald á búnaði sem viðskiptavinur fær frá Noona tilheyrir Noona skilyrðislaust. Skal viðskiptavinur ábyrgjast að búnaðurinn glatist ekki eða skemmist. Skal viðskiptavinur bæta Noona hvers konar tjón sem verður á búnaðinum sem rekja má til háttsemi viðskiptavinar eða aðila á hans vegum.
Komi upp bilanir á búnaðinum skal viðskiptavinur senda hann tafarlaust til skoðunar, og eftir atvikum viðgerðar hjá Noona. Noona ber kostnaðinn af viðgerðum nema bilanir og/eða skemmdir megi rekja til athafna eða háttsemi sem viðskiptavinur ber ábyrgð á.
Við samningslok milli viðskiptavinar og Noona af sama hvaða ástæðu er ber viðskiptavini að skila öllum búnaði tafarlaust til Noona og eigi síðar en innan viku frá samningslokum.
4. Hugverkaréttindi
Hugverkaréttur að hugbúnaði og öðrum hugverkaréttindum sem tengjast kerfunum er eign Noona eða, eftir atvikum, leyfisveitenda Noona. Noona, eða eftir atvikum leyfisveitendur félagsins, eiga þannig allan hugverkarétt, þ.m.t. höfundarrétt, vörumerkjarétt, hönnunarrétt, einkaleyfisrétt og eignarétt að viðskiptaleyndarmálum og sérþekkingu, sem tengjast kerfunum. Slíkt hið sama gildir um allar þær viðbætur og/eða breytingar sem kunna að vera gerðar á kerfunum. Á grundvelli skilmála þessara á sér þannig ekki stað neitt framsal á hugverkarétti eða annars konar eignarrétti Noona eða leyfisveitenda félagsins til viðskiptavina eða notenda.
Allt það sem fram kemur á vefsíðum Noona, og allur sá hugbúnaður sem þar liggur að baki, þar með talið útlitshönnun, ljósmyndir, texti, grafík og annað því líkt, fellur einnig undir eignarrétt Noona, eða eftir atvikum, leyfisveitenda félagsins.
Öll dreifing, endurútgáfa, eftirlíking eða rafræn afritun af innihaldi vefsíðna félagsins eða hugbúnaðar kerfanna, að hluta eða í heild, er með öllu óheimil nema með skriflegu samþykki Noona.
5. Noona HQ og Noona sölukerfi - greiðslur
Noona HQ
Noona HQ er bókunar- og afgreiðslukerfi í áskrift. Viðskiptavinir eru gjaldfærðir mánaðarlega fyrir þá þjónustuþætti sem þeir nýttu í liðnum mánuði, samkvæmt gildandi verðskrá, sé ekki samið um annað skriflega.
Viðskiptavinir þurfa ekki að greiða mánaðargjald fyrir fyrstu 14 dagana sem þeir nota Noona HQ nema að samið sé um annað, þetta köllum við prufutímabil. Að þessum tíma liðnum byrjar síðan hin mánaðarlega áskrift.
Til viðbótar við áskriftargjöld greiða viðskiptavinir einnig fyrir hvert sms-skeyti sem sent er í gegnum þjónustu Noona HQ. Verð á þeirri þjónustu fer einnig samkvæmt gildandi verðskrá hverju sinni eða öðrum skriflegum samningi aðila.
Noona HQ áskriftargjöld og gjöld fyrir sms eru almennt innheimt eftir á, en áskriftargjöld fyrir borðabókanakerfið sem er hluti af Noona HQ er innheimt fyrirfram.
Noona sölukerfi
Hægt er að vera með Noona sölukerfi í mánaðarlegri áskrift eða fá aðgang að kerfinu í stök skipti, svo sem fyrir einstaka viðburði. Viðskiptavinir eru gjaldfærðir fyrir þá þjónustuþætti sem þeir nýta hverju sinni, samkvæmt gildandi verðskrá Noona eða samþykktu tilboði milli Noona og viðskiptavinar.
Gildandi verðskrá Noona á hverjum tíma er birt á heimasíðu Noona. Noona áskilur sér rétt til að breyta verðskrám sínum, en hvers kyns breytingar skulu tilkynntar viðskiptavini með a.m.k. 30 daga fyrirvara með tölvupósti eða tilkynningu á svæði viðskiptavinar í kerfunum.
Viðskiptavinir sem nota Noona HQ og Noona sölukerfi skulu vera í reikningsviðskiptum nema samið sé um annað greiðslufyrirkomulag skriflega.
Reikningsviðskipti
Viðskiptavinur sem notar Noona HQ eða Noona sölukerfi skráir kennitölu og upplýsingar um þann aðila sem hyggst greiða fyrir þjónustuna.
Hver mánaðarmót, sé um áskriftarþjónustu að ræða, eftir atvikum eftir að prufutímabil er liðið, stofnast krafa í heimabanka viðkomandi viðskiptavinar. Sé um að ræða aðgang að Noona sölukerfi í stakt skipti stofnast krafa í heimabanka viðkomandi viðskiptavinar í upphafi næsta mánaðar eftir lok þjónustu Noona nema annað hafi verið tekið fram skriflega af Noona.
Gjalddagi reikninga er 1. hvers mánaðar, og eindagi 20. hvers mánaðar. Reikningur er sendur í tölvupósti á netfang viðskiptavinar eða annað netfang sem hann tekur fram að hann vilji fá reikninga senda á.
Sé reikningur ekki greiddur á eindaga skal viðskiptavinur greiða dráttarvexti, eins og þeir eru ákveðnir skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá og með gjalddaga. Ágreiningur um fjárhæð reiknings heimilar viðskiptavini ekki að hafna greiðslu á þeim hluta sem ekki er umdeildur.
Sé krafan ekki greidd 14 dögum eftir eindaga áskiljum við okkur rétt til þess að loka aðgangi viðskiptavinar og allra þeirra notenda sem hann greiðir fyrir, og grípa til annarra mögulegra innheimtuúrræða, þangað til að greiðsla berst.
6. Ábyrgð viðskiptavina og notenda
Viðskiptavinir og notendur skuldbinda sig til að nota þjónustu Noona í samræmi við skilmála þessa, leiðbeiningar Noona og gildandi lög og reglur. Viðskiptavinir og notendur ábyrgjast að þeir muni ekki nota kerfin í sviksamlegum eða ólögmætum tilgangi eða setja efni eða gögn inn á kerfin sem samræmast ekki lögum og almennu siðferði.
Notendur bera ábyrgð á öllum þeim aðgerðum sem þeir framkvæma í kerfunum sem og því efni sem þeir setja inn í kerfin. Viðskiptavinur ber sömuleiðis ábyrgð á öllum þeim aðgerðum sem notendur Noona sölukerfis/Noona HQ á hans vegum framkvæma í Noona sölukerfi/Noona HQ og því efni sem þeir setja inn í kerfið.
Viðskiptavinir/notendur Noona sölukerfis/Noona HQ skulu eingöngu nota þjónustuna fyrir innri rekstur og er óheimilt að nýta hana í þágu þriðja aðila, nema aðilar hafi sérstaklega samið um annað.
Notendum er óheimilt að falsa, brjóta, skemma, trufla eða með einhverjum hætti hafa áhrif á öryggiseiginleika kerfanna.
Viðskiptavini er óheimilt að framselja réttindi og skyldur samkvæmt skilmálum þessum nema að fengnu skriflegu samþykki Noona.
7. Lokun aðgangs
Noona hefur heimild til þess að grípa til allra hugsanlegra aðgerða sem teljast nauðsynlegar vegna brota viðskiptavina og/eða notenda gegn skilmálum þessum og/eða gildandi lögum og reglum. Noona hefur því m.a. heimild til að loka aðgangi viðskiptavina og/eða notenda að þjónustu Noona í heild eða að hluta og tímabundið eða ótímabundið.
Notendum kerfanna er með öllu óheimilt að nýta aðgang sinn að kerfunum í öðrum viðskiptalegum tilgangi en þeim er hefur verið samþykktur af okkur.
Noona áskilur sér rétt til þess að rjúfa þjónustu Noona tímabundið vegna uppfærslna og/eða ef þörf krefur vegna nauðsynlegs viðhalds. Noona skal eftir því sem unnt er framkvæma slíkar aðgerðir á þeim tíma sem hefur minnst áhrif á þjónustuna. Noona skal tilkynna notendum um fyrirhugaða viðhaldsaðgerð með hæfilegum fyrirvara ef hún hefur meiriháttar áhrif á aðgengi
8. Réttindi og skyldur Noona
Noona skal tryggja gæði og virkni þjónustu Noona, og aðgengi viðskiptavina og notenda eftir því sem við á og eftir því sem frekast er unnt m.t.t. aðstæðna hverju sinni. Noona ber ábyrgð á því að þjónusta Noona brjóti ekki gegn lögum, hugverkaréttindum eða samningum við þriðja aðila.
Noona er heimilt að framselja réttindi og skyldur samkvæmt skilmálum þessum til félags innan sömu samstæðu og Noona. Skal tilkynning þess efnis berast viðskiptavini með skriflegum hætti og a.m.k. 30 daga fyrirvara.
9. Uppsögn á áskrift
Hægt er að segja upp áskrift af Noona HQ og Noona sölukerfi hvenær sem er, með því að fara inn á svæði viðskiptavinar í kerfunum. Engar greiðslur fást endurgreiddar við uppsögn sama af hvaða ástæðu uppsögn er. Við uppsögn falla allar útistandandi kröfur Noona á hendur viðskiptavini í gjalddaga. Athugið að þrátt fyrir uppsögn samnings um Noona
sölukerfi ber viðskiptavini skylda til að greiða fyrir áskrift af sölukerfinu og öll önnur viðeigandi gjöld sem því tengjast þar til búnaði hefur verið skilað til Noona.
Notendur Noona geta hvenær sem er hætt notkun á Noona og eytt aðgangi sínum í gegnum smáforritið.
Við uppsögn falla niður öll réttindi sem viðskiptavinum og notendum hafa verið veitt á grundvelli skilmála þessara.
Noona geymir upplýsingar frá viðskiptavinum og notendum eftir lokun aðgangs í hæfilegan tíma og í samræmi við ákvæði laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Óski viðskiptavinur eftir gögnum úr kerfinu eftir samningslok ber honum að tilkynna Noona um slíkt án tafar. Noona getur ekki ábyrgst að gögn viðskiptavinar eða notenda séu tiltæk eftir lok þjónustunnar.
10. Persónuvernd
Til þess að geta veitt viðskiptavinum þá þjónustu sem felst í aðgangi að kerfunum er okkur nauðsynlegt að vinna með tilgreindar persónuupplýsingar sem svokallaður vinnsluaðili fyrir hönd viðskiptavina okkar. Um vinnslu þá sem við sinnum fyrir hönd viðskiptavina sem vinnsluaðili gilda vinnsluskilmálar okkar, sem teljast órjúfanlegur hluti af notendaskilmálum þessum, en þá má nálgast hér.
Hvað varðar vinnslu okkar á persónuupplýsingum um notendur Noona sem og forsvarsmenn viðskiptavina okkar og notendur sem aðgang hafa að Noona sölukerfi/Noona HQ vísast til persónuverndarstefnu okkar, sem jafnframt telst órjúfanlegur hluti af skilmálum þessum. Þar er m.a. upplýst um hvaða upplýsingar unnið er með, í hvaða tilgangi og hvaða réttindi þeir einstaklingar sem við vinnum með upplýsingar um njóta á grundvelli persónuverndarlaga. Stefnuna má nálgast hér.
Noona áskilur sér rétt til að safna og greina ópersónugreinanlegar tölfræðiupplýsingar um notkun þjónustu Noona í þágu rekstrar og vöruþróunar. Áskilur Noona sér jafnframt rétt til að birta ópersónugreinanlegar og órekjanlegar upplýsingar um framangreint, hvort sem er opinberlega eða í markaðs- og kynningarefni þjónustunnar.
11. Skilaboð Noona til viðskiptavina
Noona áskilur sér rétt til að senda viðskiptavinum og notendum með tölvupósti, eða tilkynningu á aðgangi viðskiptavina og notenda að kerfunum, upplýsingar um allar þær nýjungar sem kunna að bætast við þjónustu Noona.
Noona áskilur sér jafnframt rétt til að senda viðskiptavinum og notendum fréttabréf með tölvupósti. Viðskiptavinir og notendur geta þó alltaf afþakkað slíka þjónustu. Með samþykki viðskiptavina og notenda getur Noona jafnframt sent viðskiptavinum og notendum markaðsskilaboð í gegnum SMS.
Öll skilaboð sem notendur Noona fá í gegnum smáforritið eru send af hálfu viðskiptavina Noona sem notendur Noona hafa pantað þjónustu hjá eða eru í annars konar sambandi við. Um slík skilaboð gilda skilmálar viðkomandi þjónustuaðila.
12. Takmörkuð ábyrgð
Noona undanskilur sig ábyrgð á hvers kyns aðgerðum, þ.m.t. pöntunum og greiðslum, sem framkvæmdar eru í kerfunum. Þá ber Noona ekki ábyrgð á því efni og gögnum sem viðskiptavinir og notendur kunna að setja inn í kerfin.
Noona ber enga ábyrgð á háttsemi þriðju aðila sem kunna að sinna einstökum þjónustuþáttum í tengslum við kerfin, svo sem færsluhirða.
Noona ber enga ábyrgð á tjóni sem viðskiptavinir, notendur eða aðrir þriðju aðilar kunna að verða fyrir í tengslum við notkun á kerfunum, nema annað leiði af lögum.
Þjónusta Noona er veitt í því ástandi og formi sem hún er hverju sinni. Noona getur ekki ábyrgst að allir eiginleikar þjónustu Noona séu virkir í öllum vöfrum og/eða búnaði. Noona getur heldur ekki ábyrgst að kerfin séu villulaus með öllu eða rekin án truflana.
Möguleg bótaábyrgð Noona skal aldrei nema hærri fjárhæð en þeim þjónustugjöldum sem viðskiptavinur hefur greitt fyrir notkun á kerfunum á síðastliðnum þremur mánuðum fyrir tjónsatburð og skal bótaábyrgð Noona gagnvart notendum takmarkast við 200.000 kr., að því marki sem slík takmörkun er heimil á grundvelli laga.
Sérstaklega skal tekið fram að Noona ber enga bótaskyldu vegna tilkynninga sem berast seint, eða berast ekki, í gegnum kerfin. Að sama skapi skal Noona ekki bera ábyrgð vegna villu í efni tilkynninga eða upplýsinga sem finna má í kerfum Noona.
13. Breytingar á skilmálum þessum
Noona áskilur sér rétt til að gera breytingar á skilmálum þessum hvenær sem er. Allar stórvægilegar breytingar skulu vera tilkynntar viðskiptavinum og notendum með a.m.k 30 daga fyrirvara með tilkynningu í tölvupósti eða í gegnum svæði viðskiptavinar og notanda í kerfunum.
Skal viðskiptavini þá gefinn kostur á að segja upp þjónustu Noona. Með því að halda áfram notkun þjónustu Noona eftir að breytingarnar taka gildi telst viðskiptavinur og/eða notandi hafa samþykkt breytingarnar.
14. Varnarþing
Notkunarskilmálar þessir lúta íslenskum lögum. Ágreiningsmál sem rekja má til skilmálanna skulu rekin fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.